Monday, September 28, 2015

Magnaðir myndheimar í Safnahúsinu

Maríumyndir

Þá hefur hún loks verið opnuð, sýningin í Safnahúsinu við Hverfisgötu á sjónrænum menningararfi þjóðarinnar sem lengi hefur verið beðið. Grunnsýningin „Sjónarhorn“ byggir á samstarfi höfuðsafnanna þriggja og stofnana er tengjast sögu þessa merka húss:  Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands. Umræddar stofnanir búa yfir ríkulegum safnkosti en vitaskuld ólíkum og virðist sýningarstjórinn, Markús Þór Andrésson, hafa staðið frammi fyrir því að leiða samstarf á vægast sagt „háu flækjustigi“. Í stuttu máli sagt, þá tekst sýningin „Sjónarhorn“ í Safnahúsinu vonum framar – það er engu líkara en hún hafi verið töfruð fram, svo áreynslulaus er framsetningin og umgjörðin öll.

Ferðalag skoðandans


Aðdráttarafl Safnahússins, reist í klassískum stíl í byrjun 20. aldar sem áfangi í menningarlegri uppbyggingu landsins, veitir skipuleggjendum visst forskot enda bæði fallegur og virðulegur „safngripur“  út af fyrir sig. Sú reynsla að nálgast tignarlegt húsið og stíga inn í það, getur verið upplyftandi reynsla í sjálfri sér. En friðað hús er líka ögrandi umgjörð um svo óvenjulega samsetta sýningu.  Í þessu tilviki vinnur húsið einfaldlega með sýningunni; lagt er upp með sjö sjónarhorn í sjö meginsýningarrýmum hússins, auk þess sem ýmsir krókar og kimar luma á áhugaverðum fróðleik. Sýningin minnir að þessu leyti á völundarhús; hún byggir ekki á línulegri frásögn heldur er sýningargestinum frjálst að vafra um og velja sér leið: hann gengur einfaldlega inn í visst samhengi sýningargripa þar sem jafnræði ríkir milli muna, óháð uppruna. Þannig má t.d. velja sér sjónarhornið „út“ og sjá þar margháttar tilraunir til að ná utan um heiminn með mælingum og skrásetningum. Í sal I má m.a. skoða Manntal Árna Magnúsar og Páls Vídalín frá 1703 (á heimsminjaskrá UNESCO), bókverk Sólveigar Aðalsteinsdóttur Fjallahringur Reykjavíkur frá vestri til vesturs (1981) og konseptlistaverkin Hraðar/hægar I-II (1975) eftir Kristján Guðmundsson og Sjö metra (1992) Rúríar. Þá getur að líta vatnamælingaskúr frá 1963, Veðurbók Árna Thorlacius frá 1845-1891, Ferðakver Jónasar Hallgrímssonar frá 1841, teikningu af fyrirhugaðri stjörnuskoðunarstöð Eyjólfs Jónssonar Johnsoniusar frá 1773, dásamlega natni Samúels Eggertssonar í uppdráttunum Ár Íslands og Íslands fjöll (1913) og tilraun Hreins Friðfinnsonar til að fanga það sem sífellt rennur úr greipum – sjálfan regnbogann – í verkinu Sólarleikur (1999).

Myndheimar


Hér eru aðeins nefnd fáein verk af því fjölbreytta úrvali muna sem til sýnis eru í þessu samhengi, þó er ljóst að áherslan er á gæði heildarinnar og yfirvegun fremur en magn sem þreytir áhorfandann. Í þessu vandlega samstillta sjónræna samhengi lýkst jafnframt upp nýr skilningur án þess að einhver einn gripur, eða einn höfundur tróni yfir öðrum. Þá er það sérstaklega dregið fram, í þeim mörgu tilvikum þar sem ekkert er vitað um höfund verka, að „nafn listamanns/-konu“ sé „óþekkt“. Sýningin er raunar til fyrirmyndar hvað varðar þá áherslu sem lögð er á sýnileika kvenna í sjónrænum menningararfi þjóðarinnar.
Sýningin höfðar þannig til allra og er afar aðgengileg almenningi; hnitmiðaðir textar gefa tóninn fyrir sjónarhornin; horft er „út“ og „inn“, „upp“ og „niður“, „aftur og aftur“, sjónum beint innávið („spegill“) og að lífi „frá vöggu til grafar“. En merkingarsamhengið sem úr verður rúmar ótal hugrenningar, allt eftir því hver það er sem horfir. Þeir sem vilja vita meira, geta skoðað fallega hannaða og aðgengilega sýningarskrána eða fengið vefleiðsögn í snjallsíma eða á heimasíðu safnsins. Fræðsluþátturinn er sérlega vel unninn og munu sérfræðingar á því sviði – sem og á öðrum sviðum – hafa tekið þátt í mótun sýningarinnar frá grunni. Víða leynast spennandi fræðslu- og þátttökuhorn fyrir yngstu kynslóðina, hægt er að glugga í bækur um tengt efni (og sjá hvað hefur verið útgefið af rannsóknartengdu efni í lestrarsalnum) og horfa á sjónvarpsþátt um íslenska listasögu. Um leið má sjá þá sömu sögu, eða réttara sagt sögur, bókstaflega þenjast út fyrir augum sér þegar sjóntaugarnar þreifa á þeim myndheimum sem upp ljúkast í þessu völundarhúsi aldanna.
Sjónarhornið „upp“ (á birtingarmyndir trúarefnis og valdhafa), þar sem m.a. eru til sýnis munir úr vörslu Þjóðminjasafnins sem tengjast kirkjulist fyrri alda, er gott dæmi um framsetninguna. Myndheimar tengjast þar þvert á aldir, aðferðir og efni, en um leið á merking verkanna greiða leið að áhorfandanum; skyldleikinn milli myndverks Muggs, Sjöundi dagur í Paradís, og kápu Ágætis byrjunar hljómsveitarinnar Sigur Rósar verður ljós, ekki síst í samhengi þeirrar allsherjar sköpunarsögu sem sýningin miðlar. Pólitískt inntak í verkum Rósku og Hildar Hákonardóttur öðlast visst tímaleysi (án þess að glata róttækni) innan um eldri verkin og máluð lágmynd Huldu Hákon áréttar þann þráð alþýðlegrar tjáningar og handverks sem sem liggur um lista- og menningarsöguna allt til samtímans.

Söfn í safni


Í þessu samhengi er vert að árétta að hér á landi hefur um árabil verið starfrækt merkilegt safn, Safnasafnið á Svalbarðseyri, sem ræktar einmitt slíkan þráð og þá merkingarsköpun sem til verður til á skörunarsvæði ólíkra safna og mismunandi tjáningar. Sýningarstefna sem gengur út á samræðu þvert á hefðbundnar flokkunar- og frásagnarleiðir – í þeim tilgangi að höfða til breiðari hóps en ella og hvetja hann til þátttöku í túlkunarferlinu – hefur raunar í vaxandi mæli sett svip á sýningarhald hérlendis og má segja að sýningarnefnd Safnahússins sé því í takti við tímann. Í Safnahúsinu er þessari aðferð beitt af alúð, hugvitssemi, kímni og smitandi leikgleði til að bregða ljósi á sérstæða sögu lítillar þjóðar í norðri í einstöku samspili þekktra og lítt þekktra muna, „dýrgripa“ og hversdagslegra hluta. Þannig segja t.d. Maríumyndir (sjónarhornið er „upp“) sýningarinnar sögur af þjóðsögum, náttúrufyrirbærum, myndrænu tungumáli, persónulegri sem opinberri trúariðkun og tjáningu lærðra og leika í samstillingu verka úr öllum söfnunum. Maríulíkneski og Maríumyndir úr gögnum, handritum og kirkjum fyrri alda mæta Maríutúlkunum í 20. aldar myndverkum listmálara og portrettmynd Jóns Kaldals, og í formi frímerkja af Maríuerlum, þurrkaðs Maríustakks, ljósmyndar af Maríutásum (skýjamyndunum) og uppstoppaðs hvítfálka með bráð sína, rjúpuna – en þjóðsagan segir að heilög María hafi einmitt verið áhrifavaldur í sambandi þessari fugla. Hnykkt er á hinni lifandi hrynjandi milli minna og stefja, forma og mynstra með sjónarhorni sem heitir einfaldlega „aftur og aftur“. Gersemar úr safni Árnastofnunar og Landsbókasafnsins sjást þar við hlið listilegs útsaums, útskorinna rúmfjala og framúrstefnulegrar samtímamyndlistar. Og við þetta má bæta að á sérsýningu á 3. hæð taka handritin á sig óvæntar myndir í meðförum vídeólistamannsins Steinu Vasulka.

Sjóngleði


Eins og nærri má geta er ekki einfalt mál að sýna safngripi með ólíkar „þarfir“, t.d. hvað varðar birtu-, raka- eða hitastig. Þetta kallar á talsverðan fjölda sýningarskápa og sýningarborða. Hönnun þeirra er einföld og stílhrein; ómálaður krossviður myndar hlýlegan og „lifandi“ bakgrunn og skáparnir mynda látlausa umgjörð í fagurfræðilegu samtali sýningargripanna sín á milli og við sjálft húsið. Myndheimarnir magnast þannig hver af öðrum og í hinni sterku sjónrænu og rýmislegu reynslu sýningargesta. Slík reynsla teygir sig í króka og koma hússins og alla leið upp pall á 4. hæð þar sem opnast sýna á Esjuna, fyrirmynd listamanna í stórskemmtilegri „málverkasýningu“ sem undirstrikar ekki aðeins tengsl menningar og lands, heldur það hvernig tíðarandinn mótar túlkun á umheiminum. Safnahúsið er góður staður til að opna skilningarvitin upp á gátt og hugsa um hið stóra samhengi hluta en líka til að gleyma sér í grúski og óvæntum uppgötvunum  – ef til vill með kjörgrip sýningarinnar að leiðarljósi: uppstoppaðan og útdauðan Geirfuglinn og steingert egg hans. Hann er táknmynd þeirrar fortíðar sem söfnin leitast við að ná á tangarhaldi og jafnframt þeirra náttúrugæða sem við megum ekki glata. Jafnframt minna „Sjónarhorn“ Safnahússins á þann lærdóm sem draga má af fortíðinni og sýna að merkingin getur lifað og dafnað í núinu.

Anna Jóa