Monday, September 28, 2015

Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðarKvennatími

 Hér og nú þrjátíu árum síðar

Kjarvalsstöðum 12. september-29. nóvember 2015

Hugmyndin á bak við samsýninguna Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar er sú að kalla aftur saman á þriðja tug kvenna sem sýndu saman undir heitinu Hér og nú á Kjarvalsstöðum haustið 1985. Sýningin var jafnframt einn umfangsmesti viðburður Listahátíðar kvenna sem efnt var til vegna loka kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna. Tilgangur hátíðarinnar var að gera framlag kvenna á sviði lista og menningar sýnilegt. Konurnar sem valdar voru til þátttöku á Hér og nú voru þá margar hverjar rétt að hefja ferilinn en aðrar höfðu verið virkar í sýningarhaldi á liðnum áratug. Tilefni nýju sýningarinnar er einnig hátíð sem tengist konum: á þessu ári er haldið upp á 100 ára kosningarétt kvenna á Íslandi. Líkt og á sýningunni 1985 er lögð áhersla á að sýna ný verk og var öllum konunum á Hér og nú boðin þátttaka en þær eru allar enn virkar í listsköpun og sýningarhaldi, utan tveggja sem eru látnar. Verkin á sýningunni  spanna ýmsar aðferðir, miðla og hugmyndir. Sýnendurnir eru þær Arngunnur Ýr Gylfadóttir, Ásdís Sigurþórsdóttir, Ásta Ólafsdóttir, Björg Þorsteinsdóttir, Björg Örvar, Borghildur Óskarsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Elín Magnúsdóttir, Erla Þórarinsdóttir, Guðný Magnúsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, Hansína Jensdóttir, Harpa Björnsdóttir, Hulda Hákon, Ína Salóme Hallgrímsdóttir, Íris Elfa Friðriksdóttir, Jóhanna Bogadóttir, Jóhanna Kristín Yngvadóttir, Ragna St. Ingadóttir, Rósa Gísladóttir, Sigrún Harðardóttir, Sóley Eiríksdóttir, Valdís Óskarsdóttir, Valgerður Hauksdóttir, Þorbjörg Höskuldsdóttir og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir.

Sýningin Kvennatími – Hér og nú þrjátíu árum síðar snýst um að fylgja þessum hópi kvenna eftir og grennslast fyrir um hvað þær eru að fást við í listsköpun sinni um þessar mundir. Í ljósi þess að sýningin brúar jafnframt þrjátíu ára bil, er skyggnst eftir „tíma“ kvennanna með því að veita innsýn í sköpunarferli  og aðferðir hvers og eins listamanns. Ásamt fullunnum verkum, verða því einnig til sýnis skissur, stúdíur, ljósmyndir eða annað sem tengist slíku ferli.  Þá verða á veggjum textabrot sem eru tilvitnanir í samtöl sýningarstjóra við listamennina á vinnustofum þeirra, en þessi sýningarhluti tengist vangaveltum um hvort kyn listamannanna hafi með einhverjum hætti mótað ferilinn og hann hafi í þeim skilningi verið kvennatími.

Sýningarstjóri er Anna Jóa myndlistarmaður og listfræðingur 

http://listasafnreykjavikur.is/syningar/kvennatimi-her-og-nu-thrjatiu-arum-sidar