Wednesday, December 10, 2014

Íslensk samtímalistasaga - Fjölbreytni í tækni og tjáningu

Kvöldnámskeið 4. febrúar - 22. apríl 2015 í Myndlistaskólanum í Reykjavík
Kennt miðvikudaga kl. 20:20-21:50

Á námskeiðinu verður fjallað um myndlist á Íslandi á tímabilinu 1960 til líðandi stundar. Um miðjan sjöunda áratuginn urðu straumhvörf í íslenskri myndlist með nýrri kynslóð listamanna. Nýstárlegar aðferðir og efni einkenndu listræna tjáningu þessarar kynslóðar. Sumir furðuðu sig á því hvernig slátur, brauð, hænsnaskítur, moldarhrúgur og hvers kyns rusl gat nú talist list, en aðrir fögnuðu útvíkkun listhugtaksins. Næstu áratugir reyndust gróskumikið skeið endurskoðunar og endurnýjunar á eldri miðlum og hefðum, og á tengslum milli listar, þjóðfélags og náttúru. Gerðar voru tilraunir með form og tækni, og listamenn fóru í auknum mæli að sækjast eftir samstarfi og tengslum við aðra listamenn, listgreinar og almenning. Konur gerðu sig meira gildandi í íslenskri myndlist en áður og stofnuð voru tilraunakennd sýningarrými. Popplist, flúxus, gjörningalist, hugmyndalist, naumhyggja og vídeólist urðu áberandi, og síðar viðamiklar innsetningar, þátttöku- og venslalist. Myndlist líðandi stundar virðist rúma allt milli himins jarðar og hennar má alls staðar njóta:  sem „upplifunar“ í formi innsetninga í söfnum og galleríum, sem leiksýningar eða gjörnings í heimahúsi, á götu úti eða í náttúrunni, svo fátt eitt sé nefnt.