Tuesday, January 15, 2013

Efnisleg fjarvera

Gallerí Ágúst, Baldursgötu 12
Hugsteypan – Sviðsett
17/11-22/12 2012

Blár málningartaumur klýfur myndflötinn, málningarpollar breiða úr sér á gólfi og á einum stað virðist sjóða á málningunni líkt og í bullandi leirhver. Ljósmyndasýning Hugsteypunnar í Galleríi Ágúst ber heitið „Sviðsett“ og vísar til þess að þar er sett á svið frásögn af ferli. Ferlið byggir á frjóu samstarfi Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísar Jóhannesdóttur; sú fyrrnefnda athafnar sig með málninguna og Þórdís frystir augnablik í atburðarásinni með myndavél. Úr verður eins konar frásagnarmálverk í formi ljósmyndaraðar sem gefin hefur verið út í bók, og hér er sýndur hluti þeirrar myndraðar.

Myndirnar eru litríkar og seiðandi; linsa myndavélarinnar gælir við málninguna, dregur fram teygjanleika hennar, áferð og glampa – og fangar í senn sjónræna nautn og málunarnautnina. Tíminn er frystur í þeim tilgangi að sýna fram á ferli í tíma og rúmi, en aðeins í formi ummerkja því að hið upprunalega málverk er ekki lengur til nema í eftirmynd sinni. Hinn maleríski gjörningur virðist lifa sjálfstæðu lífi í hjáveruleika ljósmyndarinnar. Hugsteypan kveikir þannig áleitnar spurningar er varða hina efnislegu og líkamlegu fjarveru málverks, málara og raunar einnig ljósmyndara. Þessi skemmtilega leikræna og rannsakandi sýning býður áhorfandanum að tengja eigin skynrænu viðbrögð við þann gjörning sem raunverulega átti sér stað og stund – og öðlast þannig hlutdeild í sköpunarferlinu. Hugsteypan blandar sér þannig með hugkvæmum hætti í þá samræðu sem löngum hefur farið fram um eiginleika og samband málverks og ljósmyndar, stöðu miðlanna í samtíma sem í listsögulegu samhengi, um höfundinn og viðtökur listarinnar.

Anna Jóa