Tuesday, April 6, 2010

Stærsta listasafn landsins?


Frá  sýningunni "Sófamálverkið". Stóra málverkið er eftir Kjarval.

Í framhaldi umræðunnar um list í almenningsrými á síðum Morgunblaðsins, er ekki úr vegi að velta fyrir sér list í einkarými. Undirrituð fjallaði í pistli sl. sumar um dúkkuhús auðugrar hollenskrar konu frá 17. öld en húsið felur í sér smækkaða mynd einkarýmisins þar sem getur að líta ýmis agnarsmá söfn, t.d. söfn skelja, postulíns, bóka og myndverka. Íslensk heimili fara ekki varhluta af þessari borgaralegu söfnunarhefð. Það er raunar áberandi einkenni á íslenskum heimilum hversu rík áhersla hefur verið lögð á prýða þau með upprunalegum listaverkum, einkum málverkum en einnig öðrum listmunum eftir lærða sem leika listamenn (þ.m.t. yngstu fjölskyldumeðlimina!).


Stundum er rætt um sérstaka hefð „sófamálverka“, eða „sófastykkja“ (eins og Laxness komst að orði), en þau birta skýrast mikilvægi málverksins á íslenskum heimilum. Ekki þarf annað en að líta á fasteignaauglýsingar dagblaðanna til að minna sig á hversu algeng málverk eru á veggjum heimilanna. Í húsnæðisauglýsingum sést oft hin dæmigerða staðsetning stærsta (og oft dýrasta) málverksins fyrir ofan stofusófann. Málverk á íslenskum einkaheimilum hafa vakið athygli utan landsteinanna ­– nú nýlega gaf bandaríska listakonan Roni Horn út bráðskemmtilega bók með myndum af Herðubreiðarmálverkum alþýðulistamannsins Stórvals (Stefáns V. Jónssonar heitins) eins og þau koma fyrir á íslenskum heimilum, m.a. í formi sófamálverka.

Sófamálverk og önnur myndlist í einkarými geta sagt okkur heilmikið um fólkið í landinu og gildismat þess. Flutningar vekja fólk gjarnan til vitundar um mikilvægi ýmissa eigna, ekki síst þeirra sem tengjast minningum um fólk, atburði og staði. Mikill áhugi kviknaði á að eignast málverk af átthögunum eða úr sveitinni við fólksflutninga úr sveit í borg samfara umbreytingatímum í íslensku þjóðlífi á seinustu öld. Slík verk skipuðu oft sérstakan virðingarsess á hinu nýja, borgaralega heimili. Þá rötuðu landslagsmálverk inn á heimilin sem táknmyndir fyrir sérstöðu Íslands á tímum sjálfstæðisbaráttunnar. Hér skapaðist á tiltölulega skömmum tíma almennur myndlistaráhugi og átti listgreinin virkan þátt í sköpun nýs verðmætamats og sameiginlegra minninga.
Sé skyggnst inn á heimili afkomenda vesturfaranna – fólks sem fluttist búferlum vestur um haf ­– í Kanada og Bandaríkjunum, sést að landslagsmálverk frá Íslandi og aðrir munir sem tengjast Íslandi, einkum minjagripir, eiga einnig þar þátt í mótun „íslenskrar“ sjálfsmyndar, m.a. með „minningum“ sem hafa verið teknar í arf frá fyrri kynslóðum. Undirrituð hefur um árabil í samvinnu við Ólöfu Oddgeirsdóttur myndlistarmann safnað ljósmyndum og öðrum heimildum úr einkarými fólksins vestra sem tengjast íslenskri menningararfleifð – þetta verkefni kom í framhaldi af könnun okkar á íslenska „sófamálverkinu“ og samnefndri sýningu í Listasafni Reykjavíkur árið 2001. Vestan hafs tróna furðuvíða Herðubreið, Þingvellir og Snæfellsjökull yfir sófum, kommóðum og rúmgöflum, tölvuskjám og sjónvarpstækjum – rétt eins og í gamla heimalandinu.

Á Íslandi hanga nú mörg málverk frá fyrri hluta 20. aldar á veggjum heimila sem erfðagripir. Verk „gömlu meistaranna“ ganga einnig kaupum og sölum, sem og yngri listaverk. Málverk eru á mörgum heimilum stöðutákn og áherslan á sannferði verkanna hefur aukist eftir stóra fölsunarmálið. Það þykir flott að eiga „orginal“ Kjarval eða eignast verk eftir ákveðna „dýra“ listamenn í „safnið“. Heimili landsins hýsa raunar margvísleg einkasöfn sem endurspegla áhugasvið, smekk og myndlistarþekkingu eigendanna. Slík söfn spegla í mörgum tilvikum vinsældir listamanna í samræmi við markaðslögmál – sem þó samræmast ekki endilega listsögulegri stöðu þeirra, þ.e.a.s. hvort verk þeirra séu í eigu opinberra listasafna.

Hin opinberu söfn gegna lykilhlutverki við mótun (og síðan ritun) miðlægrar listasögu þjóðarinnar. Einkarýmið er hins vegar sköpunarvettvangur hinnar „óopinberu“ listasögu – sem vissulega mótast að einhverju leyti af verðmætasköpun listasafnanna. Einkarýmið felur í sér annað sjónarhorn á listasöguna ­– og annan túlkunarmöguleika – þar sem mörk af ýmsu tagi verða óskýr, t.d. milli lærðra og leika listamanna, svo sem fyrr segir, og jafnframt mörk listarinnar sjálfrar. Segja má að á einkaheimilinu líti margur á listina frá sínum bæjardyrum séð, í samhengi fjölskyldulífs, tómstunda og daglegs amsturs. Verk Stórvals eru kannski ekki þau sem við sjáum oftast á veggjum stóru listasafnanna – en þau skortir ekki í einkarýminu og eru í samfloti með Kjarval í heildarlistasafni íslenskra heimila, sem er stærsta listasafn landsins.


Anna Jóa

Sjá einnig: http://annajohannsdottir.blogspot.com/2012/08/sofamalverki.html