Tuesday, April 6, 2010

Alþjóðlegt gallerí í íslenskri sveit


Listmálarinn Gunnar Örn Gunnarson tók sig upp fyrir um tveimur áratugum og flutti af höfuðborgarsvæðinu og út í sveit – nánar tiltekið á jörðina Kamb í Rangárvallasýslu, nálægt Þjórsárbökkum. Þvert á spár sumra um að hann væri með slíkri einangrun að fremja „listrænt sjálfsmorð“ hefur Gunnar Örn blómstrað þar á ýmsan hátt sem listamaður. Hann lét ekki staðar numið þegar hann var valinn fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringinn 1988.

Á Kambi hefur hann ræktað garðinn sinn í fleiri en einum skilningi: komið upp fallegum trjáreit í hlaðvarpanum, ræktað sjálfan sig og málverkið. Þar nýtur hann góðrar vinnuaðstöðu og návistar við alltumlykjandi náttúruna. Hann á í samstarfi við Gallerí Stalke í Kaupmannahöfn og hefur frá árinu 1998 stofnað til nýrra alþjóðlega tengsla með rekstri Gallerís Kambs þar sem boðið er upp á gott úrval af alþjóðlegri sem innlendri myndlist. Af þessu má draga þá ályktun að sveitin þarf ekki að fela í sér menningarlega einangrun – raunar er afar mikilvægt fyrir menninguna að til séu valkostir utan „miðjunnar“, þ.e. höfuðborgarsvæðisins.

Galleríð hefur lengst af verið staðsett í litlu bárujárnshúsi sem reist var 1930. Þar hefur Gunnar Örn unnið óeigingjarnt starf í þágu listarinnar og boðið listamönnum að sýna á vorin og haustin.
Ekki má gleyma að slíku sýningarhaldi getur fylgt töluvert umstang. Fyrir utan flutning verka og uppsetningu sýningarinnar sjálfrar þarf að kynna sýningar, gefa út boðskort, halda opnanir og sitja yfir sýningum. Þá þurfa erlendir listamenn gistingu og aðstoð af ýmsu tagi. Gallerí Kambur er rekið alfarið á kostnað Gunnars Arnar.

Meðal íslenskra sýnenda má nefna Helga Þorgils Friðjónsson, Guðmund Ingólfsson, Þórð G. Valdimarsson (Kíkó Korriró) og Ólaf Elíasson. Í samvinnu við Gallerí Stalke hafa einnig verið sýningar þekktra erlendra listamanna, svo sem Williams Anastasi og Laurence Weiner frá Bandaríkjunum, Alberts og Lone Mertz og Anne Bennike frá Danmörku. Um þessar mundir reisir Gallerí Stalke sýningarhús á Kambi, 2 x 2 m að flatarmáli, þ.e. á stærð við ýmsar höggmyndir. Athygli vekur að veggir innanhúss verða svartir og er því um svonefndan „svartan kassa“ (eða „black cube“) að ræða, eins konar andsvar við hinum fræga „hvíta kassa“ eins og ákveðnum tegundum sýningarrýma hefur verið lýst.

Óhætt er að segja að Gallerí Kambur bjóði upp á spennandi möguleika í sýningarhaldi.
Húsakynnin hafa nýlega verið stækkuð, þar er nú einnig hægt að sýna í björtum og rúmgóðum sal. Kynning á ungum listamönnum á sér stað á kaffistofunni í sama húsi. Ónefnd er sjálf jörðin – sýningar undir beru lofti. Að Kambi standa nú þegar útiverk eftir Ívar Valgarðsson, Ólaf Elíasson og Sólveigu Eggertsdóttur. Víðsýnt er frá Kambi og mynda verkin samspil við ávalar hæðir, himin, fjöll, vötn og fljót. Yfir þessu öllu trónir fell nokkurt – sjálfur Kamburinn.


Anna Jóa