Tuesday, April 6, 2010

Líf þjóðar á sumarsýningu


Listasafn ASÍ við Freyjugötu sýnir nú verk úr safneigninni, bæði verk sem það hefur nýlega eignast og verk úr stofngjöf Ragnars Jónssonar í Smára frá 1961. Sýningin gefur tilefni til hugleiðinga um íslenska listasögu og listáhuga hér á landi.

Ragnar í Smára var mikill áhugamaður um íslenskt listalíf og meðvitaður um gildi listmenntunar almennings – einmitt þess vegna færði hann Alþýðusambandi Íslands sitt prýðilega listaverkasafn. Með reglulegum sýningum á verkum úr safninu gefst alþýðu manna tækifæri til að njóta verkanna í almenningsrými safnsins. Aðgangur er ókeypis.

Á sumarsýningunni nú sjást á efri hæð safnsins, í Ásmundarsal, verk eftir Jón Stefánsson og Kjarval. Á neðri hæðinni, í Arinstofu og Gryfju, eru verk sem bæst hafa við upprunalegt safn Ragnars eftir samtímalistamennina Önnu Eyjólfsdóttur, Olgu Bergmann, Guðrúnu Kristjánsdóttur og Birgi Andrésson. Verk Jóns og Kjarvals tilheyra hefð landslagsmálverka frá fyrri hluta 20. aldar. Í nýrri verkunum má hins vegar sjá seinni tíma vangaveltur um samband náttúru og menningar, t.d. um gildi landslags og náttúru í íslenskri þjóðarvitund í verkum Birgis og Guðrúnar. Verkin fela auðvitað öll í sér ákveðna umbreytingu náttúrunnar yfir í myndrænt form en Olgu er hugleikin raunveruleg umbreyting hennar af mannavöldum, svo sem í líftækni og erfðavísindum.

Í arinstofu er líkan Önnu af Ásmundarsal. Þar er um að ræða smækkaða útgáfu af hluta safnrýmisins sjálfs – safnið innan safnsins sem í senn skírskotar til tilefnis sýningarinnar nú („úr safneigninni“) og minnir á safnasamhengi verkanna – og jafnframt listsögulegt samhengi. Söfn stórra ríkislistasafna tengjast ritun listasögunnar nánum böndum. Einkasafn á borð við safn Ragnars í Smára, getur einnig haft töluverð áhrif á ritun slíkrar sögu. Verkin í safni hans – og listamennirnir sem þau skópu ­– hafa fengið ákveðinn gæðastimpil. Margir þekkja myndir Jóns Stefánssonar og Kjarvals einmitt vegna þess að þær eru í safni Ragnars. Ragnar stuðlaði að útbreiðslu verkanna, ekki aðeins með stofngjöf sinni til ASÍ, heldur einnig með umfjöllun í tímariti og bókaútgáfu Helgafells (þ.á m. á íslenskri listasögu í tveimur bindum eftir Björn Th. Björnsson) og með eftirprentunum í lit á málverkum úr safni sínu sem tilheyrði þá Helgafelli.

Eitt verkanna á yfirstandandi sýningu, þekkir sennilega stór hluti þjóðarinnar: Fjallamjólk Kjarvals. Oft hefur verið rætt um það hvernig höfundarverk Kjarvals – og þá ekki síst umrædd mynd ­– sé samofið íslenskri þjóðarvitund – rétt eins og íslensk náttúra. Samruni af slíku tagi er þó ekki „náttúrulegur“ heldur mótaður af listastofnuninni í víðum skilningi þess orðs, í tengslum við hugmyndir um íslenskt þjóðerni. Með athafnasemi sinni, átti Ragnar í Smára, með markvissum hætti, þátt í slíkri mótun. Þegar sjálft Nútímalistasafnið í New York (MoMA) – og þar með hið alþjóðlega listsögusamhengi – falaðist eftir verki Kjarvals, þá ritaði hann í neitunarbréfi að myndir hans yrðu ekki seldar „vegna þess að líf þessarar þjóðar byggist á því að höfum þær stöðugt hjá okkur eins og streymandi vatnið í fossinum“. Svipuð röksemd var hvatinn að því að handritin okkar skiluðu sér aftur til landsins.

Og nú hangir verkið uppi í Listasafni ASÍ (til 26. ágúst) og má hvetja fólk að leggja leið sína þangað og finna mjólkina streyma um æðar. Hitt er svo áleitin spurning – hefði verkið verið selt til New York – hvort Kjarval hefði ratað inn í alþjóðlega listasögu eða í hvort verkið hefði „gleymst“ í geymslum MoMA. Spyrja má hvort Kjarval hefði ekki átt skilið að fá alþjóðlega viðurkenningu líkt og Laxness – ætli það sé ekki svo að í hugmyndum margra um listræna tjáningu þjóðernisins þá séu þessir tveir menn að ýmsu leyti samstíga?


Anna Jóa