Tuesday, April 6, 2010

Stjörnugjöf: Hvers virði er stjarna?


Nýlega gaf ritstjórn Morgunblaðsins grænt ljós á stjörnugjöf í myndlistardómum blaðsins. Allir myndlistargagnrýnendur hafa nýtt sér þetta tækifæri að undirritaðri frátaldri. Nýlega (4. apríl) ritaði einn gagnrýnendanna, Jón B.K. Ransu, listapistil þar sem fram koma rök hans með stjörnugjöfinni og a.m.k. óbein gagnrýni á stjörnuleysi. Undirritaðri finnst því full þörf á að bregðast við þessum pistli og koma öðrum sjónarmiðum á framfæri.

Jón segir tvær meginástæður fyrir stjörnugjöf vera þær að í stuttri umfjöllun geti stjörnur „vegið sem dæmandi efni“ og gagnrýnin verði þá „ekki afstöðulaus þótt gagnrýnandinn skrifi lýsandi gagnrýni eða fari á hugarflug í ljóðrænni gagnrýni“ og hins vegar telur hann stjörnugjöf „tímabæra yfirlýsingu um stöðu Morgunblaðsins í menningarumfjöllun“, því að væntingar séu gerðar til blaðsins í menningarmálum „sem það er ekki í stakk búið til að sinna.“ Jón er þó þeirrar skoðunar að enginn fjölmiðill hafi „sinnt myndlistarumfjöllun af jafnmiklu kappi og Morgunblaðið“ en hann virðist telja að það hafi leitt til þess að umfjöllun blaðsins hafi orðið fullmikil „heimildasöfnun“, sem geti „ýtt undir afstöðuleysi eða gagnrýni án dóms.“ Umfjöllun í Morgunblaðinu sé hins vegar „dægurgagnrýni“ og þetta „undirstika stjörnurnar.“

Morgunblaðið hefur vissulega haft metnaðarfulla menningarstefnu og má raunar segja að framlag blaðsins hafi verulega þýðingu í menningarsögulegu samhengi hér á landi. Þessa þýðingu má ekki vanmeta. Í blaðinu fer fram öflug og gagnrýnin menningarumræða sem hefur í mörgum tilvikum eflandi, gagnvirk áhrif á menningarlífið – en umræðan er auðvitað um leið hluti af menningunni. Blaðið hefur lagt áherslu á þessa sérstöðu sína í vaxandi samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Það hefur jafnframt leitast við að mæta þörfum nýrrar kynslóðar, svo sem með aukinni umfjöllun um dægurmenningu – og má þar nefna gagnrýni um tölvuleiki. Segja má að stjörnugjöfin sé hluti af slíkri viðleitni. Hún hefur þó enn sem komið er ekki teygt sig yfir í leiklistar- og bókmenntagagnrýni blaðsins, en gæti alveg gert það samkvæmt því sem Jón segir um „dægurgagnrýni“ sem „dægurfjölmiðillinn“ sinni, gagnrýni sem hafi ekki fyrst og fremst skrásetningar- og heimildahlutverk.

Raunin er þó sú að í gagnrýninni listumfjöllun – jafnvel þegar hún hefur takmarkað rými til umráða – er sitthvað á seyði umfram annars vegar skráningu viðburðar og hins vegar „dóm“ sem draga má saman í tiltekinn stjörnufjölda.

Lesandi gagnrýni, af hvaða tagi sem hún er, dregst inn í ákveðna samræðu sem gagnrýnandi hverju sinni á við verk eða sýningu. Slík samræða felur í sér greiningu og túlkun á viðfangsefninu (oft rennur lýsing saman við slíka þætti, þannig að ekki er hægt að draga hana sérstaklega út úr). Gagnrýnandi á að hafa yfirsýn til að setja verk í samhengi og benda á tengingar fyrir áhugasama lesendur – jafnvel þótt gagnrýnin í heild sé ekki endilega jákvæð. Myndlistin getur þannig, fyrir tilstuðlan gagnrýninnar orðræðu um hana, verið virkur hluti af daglegu lífi margra og sýnilegur þáttur í menningunni. Hætt er við því að þegar stjörnur fylgja gagnrýni, þá einblíni lesendur á hinar fáu stjörnur, dæmi jafnvel verkið/sýninguna úr leik á svipstundu – og fari jafnframt á mis við hinn skapandi lestur textans og þá orðræðu um verkið sem þar á sér stað. Með stjörnugjöf í dómum getur þannig smám saman fjarað undan hinni gagnvirku menningarumræðu sem Morgunblaðið og lesendur þess sækjast eftir.

Freistandi er að rýna í sjálfa stjörnugjöfina í myndlistardómum frá áramótum. Mér telst til að enn hafi einungis tvær sýningar verið afdráttarlaust dæmdar „góðar“, ein í Listasafni Íslands (4 stjörnur) og önnur í Listasafninu á Akureyri (4,5 stjörnur). Ég hef grun um að margir líti svo á að einungis 4ra og 5 stjörnu dómar séu bein hvatning til að sjá þá sýningu sem um ræðir – hvað svo sem segir í umfjölluninni sjálfri. Oftast hafa verið gefnar 3 stjörnur af 5 mögulegum. Slík stjörnugjöf hlýtur í fljótu bragði að segja um sýningu að hún sé í meðallagi, hvorki slæm né sérstaklega góð. Þriðja stjarnan er í raun „ládauð“ og sá dómur, sem í henni felst, hlutlaus. Allt þar fyrir neðan má líklega skoða sem „slæman“ dóm. Nokkuð margar sýningar hafa fengið 3,5 stjörnur en telst það ekki hálfvelgja?


Stjörnugjöfin virðist því alls ekki tryggja það sem eftir var sóst – semsagt hina afdráttarlausu skoðun, andhverfu skoðanaleysisins. Raunar má almennt segja um „stjörnudóma“ í hinum ýmsu listgreinum að þar gæti furðuoft ákveðins misræmis milli stjörnugjafar og texta. 2ja stjörnu gagnrýni getur verið mun jákvæðari en stjörnurnar gefa til kynna, en misræmið kemur einna skýrast fram í 3ja stjörnu dómum. Fyrir kemur að í þeim sé jákvæð umsögn um verk lítt þekkts listamanns og maður undrast að hann fái ekki fleiri stjörnur. Hins vegar fylgja stundum þrjár stjörnur fremur neikvæðri umfjöllun um verk þekkts einstaklings og mann grunar að „staða“ hans komi í veg fyrir að stjörnurnar verði færri, þótt umsögnin bendi til að svo ætti að vera. Þess í stað fær hann „uppbót“ í stjörnugjöfinni – kannski af því að hann er „stjarna“ fyrir – og fyrir vikið kemur holur hljómur í hina gagnrýnu umfjöllun.

Slík dæmi vekja að lokum einnig áleitnar spurningar um myndlistarheiminn. Ekki kemur á óvart að stóru söfnin, sem hafa úr mestu að moða, haldi íburðarmestu og flottustu sýningarnar. Er ekki hætta á því að sýnendur í flestum galleríum og sýningarrýmum, sem ekki hafa svo sterka stöðu, standi verr að vígi þegar kemur að stjörnugjöf, hvað sem líður frumleika og gæðum listaverkanna? Í stað þess að vinna gegn tilhneigingu til ákveðinnar útjöfnunar, sem fámennið (og hugsanlegur ótti við afgerandi skoðanir eða dóma í slíku umhverfi) orsakar, þá má spyrja hvort stjörnugjöf ýti ekki frekar undir og staðfesti ríkjandi valdahlutföll í íslenskum listheimi.

Anna Jóa