Tuesday, April 6, 2010

Safnasafnið: Skapandi skörun rýma


Safnasafnið við Svalbarðsströnd í Eyjafirði stendur við þjóðveginn og vekur forvitni og laðar inn í húsakynnin vegfarendur sem á sumrin sjá þar glaðlega „móttökunefnd“ utanhúss: fólk af ýmsum stærðum og gerðum í útfærslu Ragnars Bjarnasonar alþýðulistamanns. Í fjölbreytni sinni bjóða þær alla flóru mannanna velkomna og slá jafnframt tóninn fyrir andrúmsloft og áherslur safnastarfsins.

Þetta vinalega safn er afurð hugsjónarstarfs og alúðar hjónanna Níelsar Hafstein myndlistarmanns og Magnhildar Sigurðardóttur geðhjúkrunarfræðings sem hafa rekið það í 11 ár án fastra tekna en með sívaxandi stuðningi frá opinberum aðilum, fyrirtækjum og einkaframlögum. Starfsemin fer fram í þremur samtengdum húsum; í glæsilegri nýbyggingu auk tveggja húsa er tengjast menningarsögu Svalbarðstrandarhrepps nánum böndum. Annað er heimili hjónanna en þar var áður starfræktur barnaskóli og haldnar ýmsar samkomur, hitt er gamla kaupfélagið.
Safn og heimili fléttast því saman og persónuleg nærveran ljær safninu sérstakt yfirbragð í formi hlýlegs viðmóts hjónanna ekki síður en í ræktarlegum gróðri innanhúss (takið eftir bleiku og gulu Hawaii-rósunum!) og í garði sem sjónrænt (með gluggum) og hljóðrænt (með lækjarniði) er samþættur safnrýminu. Einnig má fá nasasjón af heimilisrými hjónanna í gegnum glugga á milli húsa en slík skörun einkarýmis og opinbers safnrýmis er mjög óvenjuleg. Safneignin, að viðbættum gjöfum, er sprottin af söfnunarástríðu þeirra hjóna en þess má geta að Níels hóf að sanka að sér vísi að „byggðasafni“ þegar sem unglingur í sveit.

Viðmót safnsins mótar reynslu safngesta. Í samtali við undirritaða lýsir Níels þeirri umbreytingu sem hann sjái stundum á safngestum er virka þreytulegir í upphafi heimsóknar en fara frá safninu endurnærðir og áhugasamir líkt og eftir „vítamínsprautu“. Stafsemin lýtur einkum að alþýðulist og iðnaðarvöru svo sem brúðusafni og leikfangasafni en „með ívafi framsækinnar myndlistar sem tekur mið af safninu, eign þess og umhverfi“ eins og Níels greinir frá. Framsetning safngripa og sýninga er til þess fallin að má út hefðbundin mörk milli „alþýðumenningar“ og „hámenningar“ og búa til afslappað andrúmsloft þar sem allir geta fundið sig á skapandi hátt.
Svo virðist sem safngestir, sem annars sýna samtímamyndlist og söfnum lítinn áhuga og bera fyrir sig skilningsleysi, njóti áreynslulaust þess sem Safnasafnið býður upp á. Ef til vill vegna þess hvernig þar skarast list lærðra sem leikra – sem minnir jafnframt á að myndlistin sækir gjarnan í brunn alþýðlegs handverks og óheftrar tjáningar barna eða geðfatlaðra, og einmitt þetta allt er á boðstolum á sýningum safnsins til 12. október.

Sjá má verk eftir ýmsa myndlistarmenn. Í gryfju á neðri hæð safnsins hefur Aðalheiður S. Eysteinsdóttir skapað „lifandi“ fjárréttarstemmningu úr viði og ýmsum fundnum hlutum. Hinar samsettu fígúrur kallast á vissan hátt á við samklipp úr plasthúðuðum þakjárnsafgöngum eftir iðnaðarmanninn Óskar Beck á efri hæðinni. Þar setja verk Rósu Sigrúnar Jónsdóttur einnig skemmtilegan svip á rýmið og á sýningu Gjörningaklúbbsins undir hinni viðeigandi yfirskrift, „Gestrisni“, blandast t.d. kleinur, lopi, gæruskinn, skotthúfa og silfurskúfur saman við nælon, neon og stórisa, auk menningaráhrifa úr austurvegi eða frá Afríku. Hugurinn hvarflar til Herðubreiðarverka nævistans Stórvals þegar staðið er inni í eins konar snjóhettu í verkinu Fjallkona sem vissulega er býsna herðabreið. Í Svalbarðsstrandarstofu og í sal með innréttingum og munum úr aflagðri verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar og Co. (sem komin er frá Reykjavík) eru einnig sýningar sem lýsa skapandi samspili þess sem nýtt er og gamalt í hand- og hugverki.

Lifandi þræðir tengja saman allar þessar sýningar, hvort sem um ræðir verk atvinnu- eða áhugafólks. Safnið er í margháttaðri samræðu við samfélagið. Hvað snertir nánasta umhverfi má nefna forláta teppi úr þæfðri ull sem safnið fékk að gjöf frá leikskólabörnum á Svalbarðseyri með mynd af safninu eins og það blasir við frá eyrinni. Á neðri hæð eru sýningar á afurðum árlegra samstarfsverkefna safnsins og grunnskólabarna á Svalbarðseyri og á Grenivík og er þar sýn barnsins framlag til merkingarstarfs safnsins. Hugmyndaríki og sköpunargleði sjást einnig í verkum ýmiss hagleiksfólks og má þar nefna frumlega skreytta geisladiska Jóhönnu Bjarnadóttur frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal. Huglistar-hópurinn frá Akureyri og einkar tjáningarrík verk Ingvars Ellerts Óskarssonar eru til sýnis í tengslum við þátttöku Safnasafnsins í „List án landamæra“ en Ingvar glímdi á sinni ævi við geðklofa.

Í Safnasafninu er leitast við að draga fram skapandi neista einstaklingsins í samfélagslegu samhengi og bent á hvernig hin ýmsu svið mannlífsins geta sameinast í slíkum neista. Jafnframt er safnið sjálft frjór jarðvegur hins samfélagslega sköpunarkrafts – og það mitt í fjarðarfegurðinni.

Anna Jóa