Tuesday, April 6, 2010

Myndlistaskólinn í Reykjavík: Hið frjóa samfélag


Nemendurnir eru á aldrinum þriggja til áttatíu ára, alls um 400 talsins. Það er Myndlistaskólinn í Reykjavík, með fjölbreyttu og öflugu starfi, sem dregur að sér svo breiðan nemendahóp – og það út af fyrir sig staðfestir gildi starfseminnar í samfélaginu.

Myndlistaskólinn í Reykjavík fagnar um þessar mundir 60 ára afmæli og efnir af því tilefni til sýninga vítt og breitt um bæinn – t.d. verða myndir frá sögu skólans til sýnis í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu, í Þjóðminjasafninu sýna 6-12 ára börn textílverk og í Hoffmannsgalleríi í JL-húsinu sýna 4 kynslóðir kennara við skólann – auk þess sem verk nemenda og starfsemi skólans verður kynnt þar á opnu húsi næstkomandi laugardag. Þar verður boðið upp á ýmsa viðburði og geta gestir m.a. spreytt sig á að renna leir.

Skólinn hefur á að skipa úrvalshópi háskólamenntaðra kennara og býður ekki aðeins upp á námskeið og símenntun fyrir fullorðna – þar sem margur hefur sótt sér endurnærandi kraft í daglegu lífi og starfi – og fullgilt fornám í myndlist, hönnun eða arkitektúr fyrir nám á háskólastigi, heldur er gildi skólans ekki síst fólgið í merku og þörfu framlagi hans til myndlistarmenntunar barna og unglinga. Lengi hefur verið bent á veikleika íslenska skólakerfisins hvað grunnmenntun í myndlist áhærir.

Myndlistaskólinn í Reykjavík gegnir því brýnu hlutverki. Starfsemin er metnaðarfull og fjölþætt; lögð er áhersla á hefðbundna þjálfun auga og handar, svo sem módelteikningu og litafræði, auk tilraunakenndari verkefna í takt við hræringar í samtímanum. Myndlistaskólinn er í samstarfi við grunnskóla í Reykjavík og fá börn og unglingar tækifæri til að spreyta sig í margvíslegu faglegu samhengi í samvinnu skólans við erlenda listaskóla og ýmsar borgarstofnanir, svo sem söfnin eða Listahátíð í Reykjavík.

„Listum hefur verið líkt við taugakerfi þjóðarlíkamans og út frá þessu má álykta að þjóðfélag sem bælir eða hlúir ekki að listum sé óheilbrigt“ segir Ingólfur Arnarsson, prófessor við Listaháskóla Íslands og einn sýnendanna úr kennarahópi Myndlistaskólans í Hoffmannsgalleríi. Starfsemi Myndlistaskólans á sé hliðstæðu í Myndlistaskólanum á Akureyri en hlúa þarf betur að því grasrótarstarfi sem á sér stað annars staðar á landinu og marka starfseminni skýran ramma. Ingibjörg Jóhannsdóttir, skólastjóri Myndlistaskólans, hefur bent á þá gríðarlegu grósku í tónlistarlífinu sem hlotist hefur af um 30 ára gamalli lagasetningu um rekstur tónlistarskóla um land allt.

Nú er lag að kynna sér fyrirmyndarstarf Myndlistaskólans í Reykjavík – snara sér kannski að rennibekknum á laugardaginn – og spyrja hvort ekki sé kominn tími til að setja lög um myndlistarskóla um land allt og gefa öllum þegnum lýðræðisþjóðfélagsins kost á vandaðri undirstöðumenntun í myndlist og öðrum listgreinum – þar sem skapandi hæfileikar ungra einstaklinga er virkjuð. Það skilar sér í frjórra samfélagi og auknum lífsgæðum.


Anna Jóa