Tuesday, April 6, 2010

Graffití í opinberu rými

Graffití á Akureyri sumarið 2003. Mynd: Anna Jóa
Götulistin, eða nánar tiltekið graffití, telst sjaldnast til listar í opinberu rými – þó er almenningsrýmið vettvangur þess. Graffití er algengur þáttur í borgarveruleika samtímans og á raunar þátt í mótun borgarrýmisins. Það er iðulega umdeilt og álitið skemmdarverk, enda oft framkvæmt í óleyfi, en kraftmikið graffití-myndmál höfðar til margra sökum listræns og samfélagslegs gildis – það hefur ratað inn í söfn og gallerí þar sem það selst dýrum dómum og hefur haft áhrif í myndlistarheiminum – og það færist í vöxt að graffitíverk séu pöntuð til skreytingar húsveggja líkt og hver önnur listaverk og að „graffarar“ séu fengnir til samstarfs við borgaryfirvöld.

Upphaflega tengist graffití virkni almenningsrýmisins sem vettvangs samfélagslegs andófs. Graffití, eins og við þekkjum það nú, varð til í bandarískum borgum á 7. áratugnum þegar ungir blökkumenn, vopnaðir úðabrúsum, hófu að krefjast réttar síns í almenningsrýminu, sem svörtum hafði verið meinaður aðgangur að, með því að helga sér þar svæði. Graffití minnir þannig á að réttur til að vera í almenningi er ekki sjálfgefinn. Enn í dag felst stór hluti graffitís í skilaboðum af pólitísku tagi, svo sem með „Stop Alcoa“ á götum Reykjavíkur.

Hugmyndafræðilega átti andóf í opinberu rými sér einnig hliðstæður í fræðaheiminum og í myndlist sitúasjónistanna sem andæfðu kerfinu með því að skapa sér persónulegt svigrúm í hinu fastskorðaða, opinbera rými. Andóf þeirra fólst í ófyrirséðri notkun hins valdalausa og hlutgerða þjóðfélagsþegns á borgarskipulaginu, með óvæntri staðanotkun og ferðaleiðum, eða svonefndu „reki“. Graffití, sem gengur gjarnan út á að merkja sér umhverfið, endurspeglar að ýmsu leyti slíka skapandi andófsnotkun á borgarrýminu, einkum á jaðarsvæðum ýmis konar. Graffití vekur til umhugsunar um hvernig við skilgreinum og umgöngumst borgina.

Raunar má ætla að umræða sl. áratuga um andóf hafi átt þátt í að móta vitund borgaryfirvalda um mikilvægi þess að þjóðfélagsþegnar fái tækifæri til virkrar, skapandi þátttöku í hinu opinbera rými. Í því samhengi hefur framlag graffitílistamanna víða verið viðurkennt og þeim úthlutuð sérstök svæði til að spreyta sig. Gott graffití setur skemmtilegan svip á umhverfið og skapar nýja merkingarvídd á vissum stöðum.

Það er munur á góðu graffitíi og veggjakroti. Borgarrými Reykjavíkur fer ekki varhluta af metnaðarlausu og heimskulegu veggjakroti. Þetta er nokkuð sem raunverulega verðskuldar nafngiftina „lágmenning“ – jafnvel þótt viðurkennt sé að skemmdarverk spretti stundum af bældri tjáningarþörf. Flestir eru sammála um að slíkt er a.m.k. ekki list í hinu opinbera rými.

Í dag er graffití orðið ákveðin tíska eða „költ“ og hefur kannski misst eitthvað af upprunalega andófskraftinum. En ríkulegt myndmál þess blómstrar sem aldrei fyrr – það hefur raunar náð nýjum hæðum á alþjóðavísu með tilkomu netsins þar sem markaðurinn hefur náð á því tangarhaldi. Metnaðargjarnir graffarar halda úti fjölsóttum vefsíðum og graffití gengur kaupum og sölum í formi ljósmynda í vefgalleríum. Bækur um graffití seljast eins og heitar lummur – hér á landi vermir „Icepick“, bók Þórdísar Claessen um íslenskt graffití, efstu sæti sölulista bókaverslana.

Graffití hefur sótt ýmislegt til myndasagna, til sjónvarpsins (eftir litvæðingu þess) og til tölvugrafíkur en á hinn bóginn hefur graffití haft áhrif á ýmsa aðra myndmiðla og hönnun á síðustu áratugum. Graffití hefur löngum verið tjáningarleið þeirra sem eru á jaðrinum eða samsama sig honum; í því birtist leit að sjálfsmynd og ákveðin ásýnd eða „lúkk“. Metnaðarfullt graffíti getur slegið skapandi tóna í borgarmyndinni en það er brothættur miðlill; hrár en þó oft á jaðri flúrs og „kits“. Og það er stundum stutt í ofhlæðið í myndum jafnt sem veggskrift. Að þessu og ýmsu öðru leyti er graffití á borgarlíkamanum hliðstæða húðflúrs á mannslíkamanum.


Anna Jóa