Tuesday, April 6, 2010

Listrænt sóknarfæri í Háskóla Íslands


Ekki er öllum kunnugt um að Háskóli Íslands á eitt merkasta listasafn landsins: Listasafn Háskóla Íslands. Það á uppruna sinn í einkasafni og var stofnað árið 1980 með rausnarlegri listaverkagjöf hjónanna Sverris Sigurðssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur. Eflaust hafa þó margir tekið eftir listaverkunum sem eru hluti umræddrar safneignar og prýða opinbert rými Háskóla Íslands hér og hvar – anddyri, salarkynni, kaffistofur og stjórnsýsluskrifstofur – enda um stóran vinnustað að ræða sem fjöldi fólks á leið um daglega.

Í samtali við Auði Ólafsdóttur lektor við HÍ og safnstjóra Listasafns HÍ benti hún á að sérstöðu safnsins megi m.a. rekja til sérhæfingar þess, einkum í verkum afstraktkynslóðarinnar svonefndu. Meginuppistaðan í safninu eru verk eftir Þorvald Skúlason, Þorvaldssafn, sem telur um 200 málverk og á annað þúsund teikningar og skissur. Hér er raunar um að ræða stærsta safn verka þessa mikilvæga listamanns. Nefna má að Listasafn Háskóla Íslands hefur verið nokkuð í fréttum að undanförnu vegna frásagna af nýlegum fundi verka eftir Þorvald í Tours í Frakklandi. Þá segir Auður mikla viðurkenningu fólgna í því að safnið fékk að gjöf þriðjung verkanna úr erfðabúi listmálarans Guðmundu Andrésdóttur, alls 80 verk, á móti Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur sem fengu einnig þriðjung hvort. Þá á safnið fjölmörg lykilverk eftir aðra afstraklistamenn, svo sem Hörð Ágústsson, og um 400 verk eftir ýmsa samtímalistamenn.

Ljóst er að hér er um geysilega verðmætt og mikilvægt listasafn að ræða – safn sem varðveitir hluta þjóðararfsins. Ekki þarf annað en að líta til fyrirmyndarinnar – listasafna stórra bandarískra háskóla á borð við Harvard og Yale – til að átta sig á gildi slíkra safna. Listasöfn þessara skóla eru einfaldlega meðal þeirra virtustu og verðmætustu í heiminum. Þau eru í hávegum höfð innan og utan þessara skólastofnana og teljast þýðingarmikill hluti af hinu akademíska starfi, ekki síst rannsóknastarfi á sviði lista- og menningarsögu. Söfnin leggja áherslu á virka samræðu við samfélagið og hafa yfir að ráða sérstakri aðstöðu og glæsilegum sýningarsölum sem eru vettvangur fyrir metnaðarfull sýningarverkefni, ráðstefnur, fyrirlestra og margháttaða fræðslustarfsemi.

Hvernig er húsnæðismálum Listasafns Háskóla Íslands háttað? Listasafnið er skilgreint sem þjónustu- og rannsóknarstofnun (með sérstökum Styrktarsjóði til rannsókna á íslenskri myndlist) og í stofnskrá frá 1980 er kveðið á um aðgengi almennings að verkunum með bráðabirgðaupphengingu verka og geymsluaðstöðu fyrir þann hluta safnsins sem ekki er sýnilegur almenningi hverju sinni. Safnið er nú varðveitt í Odda og þar sem verk úr eigu safnsins eru til sýnis á öllum hæðum.

En til að listaverkunum, gefendum þeirra og safninu sé sýndur viðeigandi sómi og því verði gert kleift að sinna hlutverki sínu sem best, þarfnastþað augljóslega aðseturs til frambúðar. Sérhannað sýningarrými og rannsóknaraðstaða myndi, líkt og Auður bendir á, einnig fela í sér viðurkenningu á Listasafni Háskóla Íslands sem fullgildri rannsóknarmiðstöð í íslenskri myndlist. Slík miðstöð myndi skapa spennandi möguleika til samræðu við aðrar rannsóknarstofnanir á menningarsviðinu, ekki síst á háskólasvæðinu, auk þess að skapa sérhæfðan vettvang fyrir samfélagstengda starfsemi.

Það vekur spurningar að nú, 27 árum og nokkrum nýbyggingum eftir stofnun Listasafns Háskóla Íslands, skuli enn skorta slíka aðstöðu. Senn líður að vígslu nýs Háskólatorgs en þar verður ekki sýningarsalur eða aðsetur fyrir Listasafn Háskóla Íslands – sem stingur óneitanlega í stúf við nýlegar yfirlýsingar Háskólans í Reykjavík um að gert sé ráð fyrir sérstökum sýningarsal fyrir myndlist í fyrirhuguðum nýbyggingum skólans við Öskjuhlíð. Hefur Háskóli Íslands sofnað á verðinum?

Aðspurð um þetta segir Auður að hún hafi ásamt bæði fyrrverandi og núverandi stjórn listasafnsins lagt fram tillögur til úrbóta sem hingað til hafi ekki hlotið hljómgrunn meðal yfirvalda HÍ en það kunni þó að breytast senn. Skilningur sé fyrir hendi. Hún bendir á að listaverkaeign skólans, líkt og hún birtist á veggjum hans, veki jafnan athygli og hún tengist sérstöðu Háskóla Íslands, æðstu menntastofnunar þjóðarinnar, hvað snertir það hlutverk hans að leggja rækt við íslenska menningu, sögu og tungu. Háskóli Íslands sé eini staðurinn í heiminum þar sem hægt sé að leggja stund á akademískt nám í íslenskri myndlistarsögu – í hinu nýtilkomna listfræðinámi sem byggt hefur verið upp á undanförnum árum í samvinnu HÍ og Listaháskóla Íslands. Oft hefur verið rætt um skilnings- og þekkingarleysi á myndlist í íslensku samfélagi. Auður telur að listfræðinámið, sem státi af miklum fjölda nemenda, eða á annað hundrað, feli í sér margvísleg tækifæri til þekkingarsköpunar. Slíkt nám myndi græða mjög á öflugri rannsóknarmiðstöð og sérstakri sýningaraðstöðu í tengslum við Listasafn Háskóla Íslands.

Anna Jóa