Tuesday, April 6, 2010

Dúkkuhús í meistaraflokki


Um þessar mundir er unnið að viðamikilli endurnýjun Ríkislistasafnsins í Amsterdam í Hollandi og er stærstur hluti þess lokaður. Í þeim hluta sem opinn er almenningi eru til sýnis perlur úr safneigninni – nánar tiltekið frá 17. öld sem jafnan hefur verið nefnd gullöld hollenskrar myndlistar. Undir yfirskriftinni „Meistaraverkin“ má sjá verk hollenskra meistara á borð við Rembrandt van Rijn, Johannes Vermeer, Frans Hals, Jan van Goyen, Jacob van Ruisdael og Salomon van Ruysdael. Athygli vekur, í þessu samhengi hins listsögulega hefðarveldis, að til sýnis er einnig forláta dúkkuhús, kennt við Petronellu Oortman húsfrú, við hlið olíumálverks Jacobs Appels af sama húsi.

Hollensk gullaldarmyndlist, eins og við sjáum í verkum Rembrandts og félaga, endurspeglar sérstakar þjóðfélagsaðstæður. Myndverk voru þá í fyrsta sinn seld á opnum markaði og til varð ný sérhæfing í samræmi við áhuga borgaranna á daglegri og efnislegri tilvist. Tegundarmálverkið blómstraði, til dæmis portrett, kyrralífsverk og landslagsmyndir, í verkum sem mörg hver endurspegla hollenska hagsæld af nánast kortafræðilegri nákvæmni. Jafnvel dúkkuhús Petronellu – sem sjá má á vissan hátt sem kortlagningu tilveru hennar ­– rataði á striga í verki Appels og telst líklega til „innimynda“ sem þá voru vinsæl tegund málverka.

Húsið sjálft er engin smásmíði, meira en mannhæðarhátt og þarf stiga til að sjá herbergin á efstu hæð. Petronella Oortman var auðug kaupmannsfrú sem pantaði húsið en kostnaðurinn við gerð þess mun hafa numið andvirði „alvöruhúss“ við eitt af síkjum Amsterdam, enda komu færustu handverksmenn að gerð þess.
Húsið hefur líka öll einkenni ríkmannslegs alvöruhúss og hefur sem slíkt einstakt heimildagildi; það skiptist í 9 sérhæfð rými og er húsbúnaður allur hinn glæsilegasti: sérpantað postulín frá Kína og fuglabúr í betra eldhúsinu, silkitjöld og -púðar í barnaherberginu, spunarokkur og straujárn í línherbergi, teketill úr silfri, vegg- og loftmálverk, innbundnar bækur (m.a. Biblían og kort af Afríku) og skápur með skeljasafni í betri stofunum. Garður mun hafa fylgt húsinu en hefur ekki varðveist. Dúkkuhúsið var ekkert barnaleikfang, heldur stáss húsfreyjunnar sem gestum var sýnt sérstaklega.

Dúkkuhúsið er raunar í sérhönnuðum skáp sem lagður er pjátri og skjaldbökuskeljum. Slíkir dúkkuhúsaskápar voru algengt tómstundagaman auðugra hollenskra kvenna á 17. öld og eiga sér samsvörun í safnskápum herramanna – einkasöfnum þar sem þeir varðveittu fágæta gripi, gjarnan grafíkverk eða framandi hluti frá fjarlægum löndum.
Aðeins hafa varðveist þrjú dúkkuhús. Kannski hafa skápar kvennanna lent í höndum barna og tvístrast í tímans rás – að minnsta kosti hafa þeir ekki verið varðveittir og skráðir jafnrækilega á spjöld sögunnar og fágætissöfn karlanna sem jafnan eru talin forveri og undirstaða ýmis konar safna í nútímanum í samræmi við ráðandi sjónarhorn menningarinnar. Eða hvers vegna hafa dúkkuhús kvennanna – sem eru ekki síður merkileg – ekki verið nefnd í sömu andrá?

Dúkkuhúsin eru staðsett á jaðrinum í menningunni en þau voru miðlæg sem sýningargripir inni á heimilinu. Þeim er lýst sem tómstundaiðkun kvennanna en áhugamál kvenna á þessum tíma mótast auðvitað af því hlutverki sem konum var látið í té – af körlum. Nútímavæðingin var í örri þróun í siglinga- og verslunarveldinu Hollandi á 17. öld samfara stækkun borga og tilurð heimsmarkaðar. Borgarastéttinni óx ásmegin og með henni varð til sérstök menning, þ.á m. hið borgaralega, röklega skipulagða og niðurhólfaða heimili – sem jafnframt var einkarýmið og staður konunnar og einstaklingsrými hennar þegar best lét.
Dúkkuskápurinn er smækkuð útgáfa af lokaðri veröld konunnar – táknmynd fyrir smækkaða skápatilveru. Húsin voru stöðutákn en það skipti líka máli fyrir sjálfsmynd kvennanna að hafa húsin fjölbreytt og glæsileg með tilvísunum út í heim (svo sem með kínversku postulíni). Ríkislistasafnið í Amsterdam minnir á að dúkkuhúsin endurspegla heimsmynd ekki síður en hin alkunnu meistaraverk hollensku gullaldarmálaranna.


Anna Jóa